03/10/13

Íbúar á Raufarhöfn verða virkir þátttakendur í byggðaaðgerðum

Almennt – 12. desember 2012

Raufarhöfn

Raufarhöfn

Virk aðkoma íbúa er grunnurinn að verkefni um eflingu byggðar á Raufarhöfn, sem Byggðastofnun, Norðurþing og Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga ásamt íbúasamtökum Raufarhafnar standa fyrir. Á íbúafundi sem haldinn var á Raufarhöfn mánudaginn 10. desember var verkefnið til umræðu.  Á fundinn mættu yfir 50 manns. Auk fjölmargra íbúa og þeirra sem fundinn boðuðu mættu forsvarsmenn GPG á Húsavík, starfsmenn sveitarfélagsins og atvinnuþróunarfélagsins og formaður stéttarfélagsins Framsýnar. Reinhard Reynisson, framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga, var fundarstjóri.

Aðalsteinn Þorsteinsson, forstjóri Byggðastofnunar, sagði frá aðdraganda verkefnisins og  niðurstöðum íbúafundar í október s.l., en á þeim fundi fóru umræður fram í þremur málefnahópum og ýmsar hugmyndir að mögulegum aðgerðum komu fram. Þær tóku til sjávarútvegs, ferðaþjónustu og umhverfis, svo dæmi séu nefnd.  Bergur Elías Ágústsson sveitarstjóri Norðurþings ræddi um sjávarútveg, um ferðaþjónustu og um hús og lóð SR, sem eru nú eignir Norðurþings.  Finna þarf hlutverk fyrir þessi hús og fá starfsemi inn í þau. Það geti til dæmis verið starfsemi á sviði sjávarútvegs, menningar og lista eða iðnaðar.  Sigurborg Kr. Hannesdóttir hjá ILDI kynnti skipulagningu íbúaþings sem stefnt er að því að halda yfir helgi, í lok janúar 2013.  Lýstu íbúar miklum áhuga áþátttöku í því.  Þar verða meginmarkið viðreisnarstarfsins mótuð og þeim forgangsraðað og í kjölfarið sett fram í formi framkvæmanlegra verkefna.  Niðurstöður þingsins verða lagðar til grundvallar við ákvarðanir um byggðaaðgerðir á Raufarhöfn. Skýrt kom fram á fundinum að ráðning starfsmanns sem sinnir uppbyggingu á Raufarhöfn  í fullu starfi og er búsettur á staðnum er bæði mórölsk og praktísk forsenda fyrir því að snúa þróuninni við. Um það er full samstaða meðal íbúa og annarra sem að  verkefninu standa.

Umræður á fundinum voru líflegar.Ljóst er að þrátt fyrir óvissu um framtíðina telja heimamenn tækifærin til að efla byggðina liggja víða.  Fundurinn heppnaðist mjög vel og endaði á nótum samstöðu, bjartsýni og baráttugleði.

Af heimasíðu Byggðastofnunar

03/10/13

Íbúaþing á Raufarhöfn

Almennt – 23. janúar 2013
Raufarhöfn (mynd raufarhofn.is)

Raufarhöfn (mynd raufarhofn.is)

Í sameiginlegu verkefni Byggðastofnunar, Norðurþings, Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga og Háskólans á Akureyri, um þróun byggðar á Raufarhöfn er lögð áhersla á aðkomu íbúa.  Haldnir hafa verið tveir fundir með íbúum og um næstu helgi, 26. – 27. janúar verður haldið íbúaþing í Grunnskólanum.

Til umræðu er Raufarhöfn og framtíðin, en fólksfækkun undanfarin ár og óvissa um framtíðina brennur á íbúum.  Allt er til umræðu og þátttakendur móta sjálfir dagskrána.  Vænta má umræðu um atvinnumál, umhverfismál og málefni samfélagsins.  Umsjón með þinginu hefur Sigurborg Kr. Hannesdóttir, hjá ILDI, þjónustu og ráðgjöf.

Við upphaf þingsins verður upplýst um stöðu þeirra mála sem hafa komið til umræðu á fyrri fundum, s.s. möguleika í sjávarútvegi, þróun SR svæðisins, eflingu ferðaþjónustu og ráðningu starfsmanns í þróunarverkefni.  Byggðastofnun og Norðurþing munu í sameiningu bera kostnað vegna starfsmanns og aðstöðu í eitt ár.  Fjármagn í önnur verkefni liggur ekki fyrir, en samstaða íbúa um verkefni eykur möguleika á fjármögnun.

Skilaboð þingsins munu hafa áhrif á þá valkosti sem Byggðastofnun, Norðurþing, Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga og Háskólinn á Akureyri munu taka til skoðunar í sínum ákvörðunum varðandi Raufarhöfn.  Einnig mun verkefnisstjórn koma skilaboðum þingsins á framfæri við ríkisstjórn, stofnanir og fyrirtæki sem hafa áhrif á þjónustustig og þróun byggðar á Raufarhöfn.

Gert er ráð fyrir að í lok febrúar verði síðan efnt til annars íbúafundar þar sem farið verður nánar yfir skilaboð þingsins og aðgerðir byggðar á þeim.

Þessi nálgun, að íbúar ræði málefni síns samfélags, stöðu og möguleika, er kjarninn í verkefninu um þróun byggðar á Raufarhöfn.

Af heimasíðu Byggðastofnunar

03/10/13

Íbúar Raufarhafnar horfa fram á veginn

Almennt – 28. janúar 2013
Frá íbúaþingi

Frá íbúaþingi

Ríflega þriðjungur íbúa Raufarhafnar, frá unglingum til eldri borgara, tók þátt í tveggja daga íbúaþingi um helgina, ásamt fulltrúum úr sveitarstjórn og frá ýmsum stofnunum.  Á líflegu þingi voru til umræðu þau mál sem helst brenna á samfélaginu og leiðir til lausna. Þingið var liður í byggðaþróunarverkefni á Raufarhöfn sem Byggðastofnun, Norðurþing, Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga og Háskólinn á Akureyri standa að.

Áherslan var ekki síður á það sem íbúar geta gert sjálfir, en lausnir sem þurfa að koma utan frá.  Þátttakendur stungu upp á umræðuefnum og var meðal annars rætt um atvinnumál almennt, ferðaþjónustu, sjávarútveg, nýsköpun, æðardún, þjónustumiðstöð vegna olíuvinnslu, skólamál, íþrótta- og tómstundamál ungra og aldinna, húsnæðismál, málefni yngra fólks sem vill snúa aftur heim til Raufarhafnar, internet og orkumál.

Í lok þings forgangsröðuðu íbúar því sem þeir telja skipta mestu máli fyrir eflingu byggðar á Raufarhöfn.  Byggðakvóti, eyrnamerktur Raufarhöfn, bæði í bolfiski og makríl, var þar efstur á blaði. Þar á eftir kom áhugi á verulegri sókn í ferðaþjónustu og markaðssetningu, efling atvinnulífs almennt og draumur um að eignir sem áður tilheyrðu SR fái nýtt hlutverk og skapi sóknarfæri af fjölbreyttum toga.  Fram komu áhyggjur af ástandi húsnæðis sem stendur autt og því að þrátt fyrir stöðuna er erfitt að fá íbúðarhúsnæði til leigu.  Þá var varpað fram ýmsum skemmtilegum hugmyndum um menningarstarf, heimkomuhátíð og samstarf við nágranna í skóla- og æskulýðsmálum.

Byggðastofnun mun á næstunni ráða starfsmann til að sinna þróunarverkefnum á Raufarhöfn til eins árs.  Á þinginu var íbúum gefinn kostur á að ræða um hver verkefni starfsmannsins ættu að vera, til að skerpa á markmiðum starfsins.

Steingrímur J. Sigfússon, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, lét ófærð ekki aftra sér og sat með heimamönnum í lok þings.  Hann lýsti yfir vilja til að styðja þetta verkefni og hvatti fólk til dáða.

Nú verður unnið frekar úr skilaboðum þingsins og mun verkefnisstjórn síðan gera áætlun um næstu skref.   Stefnt er að öðrum íbúafundi á Raufarhöfn í lok febrúar til að fylgja íbúaþinginu eftir.

Með þessu verkefni er verið að reyna nýjar leiðir í aðstoð við brothættar byggðir, þar sem þátttaka íbúanna sjálfra er í forgrunni.  Byggðastofnun stefnir að því að nýta reynsluna af Raufarhafnarverkefninu á fleiri stöðum á landinu í samstarfi við sveitarfélög og stoðstofnanir á viðkomandi svæðum.

Þegar boðið er til samráðs og þátttöku felur það í sér loforð um aðkomu að ákvörðunum.  Þeir aðilar sem standa að verkefninu hafa lofað að nýta skilaboð þingsins til að skilgreina valkosti í þeim málum sem að þeim snúa, ásamt því að koma sjónarmiðum íbúa á Raufarhöfn á framfæri við ríkisvald, stofnanir og fyrirtæki sem haft geta áhrif á þróun byggðarlagsins.  Unnið er samkvæmt alþjóðlegum stöðlum og aðferðum og var umsjón með íbúaþinginu í höndum Ildis, ráðgjafar og þjónustu, sem hefur sérhæft sig í þátttöku almennings.

Við upphaf þingsins ríkti óvissa þegar íbúar stóðu frammi fyrir því að móta dagskrána sjálfir og enginn vissi hvernig helgin myndi þróast.  Andinn var þó léttur og þegar þingið var opnað með harmonikkuleik skellti danspar sér óvænt út á gólfið.  Í lok þings hafði kraftur þátttakenda og samfélagsins alls verið virkjaður, það var hlegið, klappað og hrópað ferfalt húrra fyrir Raufarhöfn.

Hér má sjá myndir af íbúaþinginu.

 

Af heimasíðu Byggðastofnunar

03/10/13

Byggðastofnun ræður starfsmann á Raufarhöfn

Almennt – 15. febrúar 2013

Kristján Þ. Halldórsson

Kristján Þ. Halldórsson

Byggðastofnun hefur ráðið til starfa Kristján Þ. Halldórsson verkfræðing sem verkefnisstjóra í fullu starfi til að fylgja eftir atvinnu- og byggðaþróunarverkefni á Raufarhöfn sem Byggðastofnun, Norðurþing, Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga og Háskólinn á Akureyri standa að sameiginlega með íbúasamtökum á Raufarhöfn.   Kristján er búsettur á Kópaskeri, en starfsstöð hans verður á Raufarhöfn.  Ráðningin er til eins árs, og mun sveitarfélagið Norðurþing sjá honum fyrir starfsaðstöðu.   Kristján mun væntanlega hefja störf á Raufarhöfn þann 1. mars næst komandi.

Opinbert stoðkerfi atvinnulífs á landsbyggðinni hefur á að skipa fjölbreyttum verkfærum til að efla byggð og atvinnulíf.  Þar má nefna lánveitingar Byggðastofnunar, starfsemi atvinnuþróunarfélaga og Nýsköpunarmiðstöðvar í einstökum landshlutum og margvísleg starfsemi einstakra sveitarfélaga.  Einnig má nefna öflugt stoðkerfi í landbúnaði.  Reynsla undangenginna ára og áratuga hefur hins vegar sýnt að uppbygging almenns stoðkerfis hefur ekki nýst brothættustu samfélögunum sem skyldi,  og raunar eru þau verkfæri sem til staðar eru ekki vel til þess fallin að rjúfa vítahring fólksfækkunar, samdráttar í þjónustu og einhæfni í atvinnulífi.

Raufarhöfn er eitt þeirra fámennu samfélaga þar sem byggð stendur nú höllum fæti eftir langvarandi íbúafækkun, en íbúaþróun á Raufarhöfn hefur um langt árabil verið mjög neikvæð.  Um síðustu áramót voru íbúar 169, og hafði þá fækkað úr 185 árið áður. Íbúar voru 294 árið 2001 og 383 árið 1994.  Þetta er að líkindum mesta íbúafækkun sem orðið hefur á landinu á þessu tímabili.  Mest hefur fækkunin verið í yngri aldurshópum.

Síðast liðið haust tók Byggðastofnun höndum saman við sveitarfélagið Norðurþing, Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga, Háskólann á Akureyri, íbúasamtök á Raufarhöfn, og fleiri aðila um rekstur tilraunaverkefnis þar sem leitað er lausna á bráðum vanda Raufarhafnar.  Aðferðafræðin felur í sér að leitast er við að leiða fram vilja og skoðanir íbúanna sjálfra, og leita lausna á þeirra forsendum í samvinnu við sveitarfélagið,  landshlutasamtök sveitarfélaganna, atvinnuþróunarfélag, ríkisvaldið, brottflutta íbúa og aðra sem vilja láta sig framtíð byggðarlagsins varða. Þetta verkefni hefur nú þegar skilað umtalsverðum árangri við að virkja heimamenn til að tryggja eigin framtíð og miklar væntingar eru gerðar til þess að verkefnið skili meiri árangri en fyrri tilraunir til að nálgast vanda Raufarhafnar að ofan og utan.  Skipuð var verkefnisstjórn með fulltrúum framangreindra aðila og hefur hún haldið nokkra fundi.  Þá hafa verið haldnir  fundir og íbúaþing með íbúum Raufarhafnar.   Í framhaldinu er ætlunin að taka til skoðunar fleiri byggðarlög þar sem aðstæður kunna að vera með svipuðu móti, og hefur fyrsta kastið verið horft til Breiðdalsvíkur, Skaftárhrepps og Bíldudals í því sambandi.  Á næstu vikum verða myndaðar sambærilegar verkefnisstjórnir vegna þeirra.

Það er von Byggðastofnunar að með þessari aðferðafræði megi takast að stemma stigu við fækkun íbúa, og að til verði sterkara samfélag sem búi við stöðugleika í atvinnulífi og þjónustu, og aukna bjartsýni íbúanna.  Fyrir Byggðastofnun, og ríkisvaldið, er ekki síður mikilvægt að þróa verkfæri og verklag sem nýst geti sem viðbót við hið almenna stoðkerfi atvinnulífsins.

 

Af heimasíðu Byggðastofnunar

03/10/13

Merki um viðsnúning á Raufarhöfn

Almennt – 28. febrúar 2013

Frá fundinum á Raufarhöfn

Frá fundinum á Raufarhöfn

Á íbúafundi sem haldinn var á Raufarhöfn á þriðjudag, má merkja töluverðan viðsnúning frá því markviss vinna til að efla byggð hófst síðastliðið haust. Verkefnið er á vegum Byggðastofnunar í samstarfi við Norðurþing, Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga og Háskólann á Akureyri. Byggt er á virku samstarfi við íbúa og hafa þessar stofnanir lofað því að í sínum ákvörðunum í málum er varða Raufarhöfn muni skilaboð íbúa nýtt til að skilgreina valkosti, ásamt því að koma þeim á framfæri við ríkisvald, stofnanir og aðra sem geta haft áhrif á þróun byggðar á Raufarhöfn.

Ríflega 50 manns sóttu fundinn á þriðjudag og er þetta í fjórða sinn sem fundað er með íbúum. Í janúar var haldið íbúaþing, þar sem skilgreind voru sóknarfæri og þeim forgangsraðað. Umsjón með þinginu og íbúafundinum var í höndum Sigurborgar Kr. Hannesdóttur frá ráðgjafarfyrirtækinu Ildi.

Megináhersla er af hálfu íbúa er lögð á byggðakvóta fyrir Raufarhöfn, en fast á eftir fylgdu hugmyndir um uppbyggingu ferðaþjónustu og nýtingu húsa og lóðar áður í eigu SR. Á vettvangi Atvinnuvega- og nýsköpunarráðueytisins, og í atvinnuveganefnd Alþingis eru nú til skoðunar möguleikar á séstökum byggðakvóta til byggðarlaga í alvarlegum og bráðum vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi. Verið er að vinna að málefnum ferðaþjónustunnar á Raufarhöfn, meðal annars uppbyggingu Heimskautsgerðisins og endurbætur á Hótel Norðurljósum. Íbúar hafa hist og rætt um mögulega afþreyingu í ferðaþjónustu eins og t.d. hestaleigu og gönguferðir. Til skoðunar er að nýta SR-húsin í tengslum við ferðaþjónustu og verður tekin ákvörðun um framtíð svæðisins, innan árs. Á fundinum kom fram að fjömargar umsóknir bárust um störf í fiskvinnslu á vegum GPG sem er að auka starfsemi sína á Raufarhöfn. Ein fjölskylda er þegar flutt á staðinn vegna þessarar vinnu og önnur á leiðinni.

Umræður á fundinum voru afar jákvæðar og uppbyggilegar og ýmsar nýjar hugmyndir bornar upp. Rætt var um hugmynd Náttúrustofu Norðausturlands um að setja á fót alþjóðlega rannsóknastöð, um að marka stefnu um hágæða framleiðslu í fiskvinnslu, um að nyrsti hluti Melrakkasléttu verði hluti Vatnajökulsþjóðgarðs og fleira.

Í umræðum um opinbera þjónustu á fundinum komu fram áhyggjur af stöðu löggæslunnar, en einn lögreglumaður, staðsettur á Þórshöfn, sinnir fjórum byggðakjörnum á stóru svæði, þar á meðal Raufarhöfn. Fram kom hugmynd um að koma á fót nágrannavörslu í samstarfi við lögreglu.

Á fundinum var kynntur Kristján Þ. Halldórsson nýráðinn verkefnisstjóri til eins árs, með aðsetur á Raufarhöfn. Hann mun m.a. vinna áfram með þær hugmyndir sem viðraðar voru á íbúaþinginu sem og aðrar þær hugmyndir sem upp hafa komið í tengslum við verkefnið og fylgja málum eftir. Áfram verður lögð áhersla á virka þátttöku íbúa, enda er það forsenda þess að árangur náist.

Almenn ánægja kom fram á fundinum með verkefnið og bjartsýni á árangur þess. Verkefnisstjórnin undirstrikaði að íbúarnir þurfi áfram að vera virkir þó svo verkefnisstjóri komi til starfa. Ekki megi setja allt á hans herðar. Undir þetta tóku ýmsir fundargesta. Fram kom í máli forstjóra Byggðastofnunar að um óvissuferð er að ræða og að kannski muni takast að snúa byggðaþróun á Raufarhöfn til betri vegar og kannski ekki. Þá var lögð áhersla á að samstaða sé mikilvæg, bæði meðal íbúa sjálfra, sem og þeirra og sveitarstjórnar.

Byggðastofnun hyggst nú hefja vinnu við svipuð verkefni á fleiri stöðum á landinu sem þar sem við alvarlegan byggðavanda er að etja.

Hér má sjá greinargerð frá íbúaþinginu í lok janúar.

Af heimasíðu Byggðastofnunar

03/10/13

Vinna með íbúum á Raufarhöfn heldur áfram

Almennt – 22. febrúar 2013
Frá íbúafundi á Raufarhöfn í janúar

Frá íbúafundi á Raufarhöfn í janúar

Áhersla á aðkomu íbúa er kjarninn í verkefni um þróun byggðar á Raufarhöfn sem Byggðastofnun, Norðurþing, Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga og Háskólinn á Akureyri standa að.  Liður í þeirri vinnu var íbúaþing sem haldið var í janúar síðastliðnum.   Næstkomandi þriðjudag, 26. febrúar nk. verður haldinn kynningar- og umræðufundur með íbúum Raufarhafnar, þar sem skilaboðum íbúaþingsins verður fylgt eftir.

Á íbúaþinginu voru viðraðar og ræddar ýmsar hugmyndir um eflingu byggðar.  Verkefnisstjórn hefur unnið úr hugmyndunum og  á fundinum á þriðjudag verður brugðist við þeim.  Íbúar hafa einnig tekið við boltanum í ýmsum málum og hafa væntanlega frá einhverju að segja líka.

Skref fyrir skref er að verða til forgangsröðun varðandi verkefni og aðgerðir.  Byggðastofnun hefur ráðið verkefnisstjóra á Raufarhöfn, til eins árs, Kristján Þ. Halldórsson og mun hann fylgja málum eftir.  Áfram verður lögð áhersla á virka þátttöku íbúa, enda er það forsenda þess að árangur náist.

Fundurinn á þriðjudag er mikilvægur áfangi í byggðaþróunarverkefninu og vonandi sjá allir áhugasamir sér fært að mæta.  Fundurinn verður í Félagsheimilinu, kl. 17.  Boðið upp á kaffi og meðlæti.

Af heimasíðu Byggðastofnunar

03/10/13

Frá íbúaþingi til aðgerða

Frá íbúaþingi til aðgerða

Þriðjudaginn 26. febrúar nk. er boðið til íbúafundar á Raufarhöfn. Þetta er kynningar- og umræðufundur og er liður í verkefni um þróun byggðar á Raufarhöfn, sem Byggðastofnun stendur að, í samstarfi við Norðurþing, Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga og Háskólann á Akureyri.

Á íbúaþingi sem haldið var í janúar, voru viðraðar og ræddar ýmsar hugmyndir um eflingu byggðar. Verkefnisstjórn hefur unnið úr hugmyndunum og á fundinum á þriðjudag verður brugðist við þeim. Íbúar hafa einnig tekið við boltanum í ýmsum málum og hafa vonandi frá einhverju að segja líka.

Skref fyrir skref er að verða til forgangsröðun varðandi verkefni og aðgerðir, byggð á skilaboðum íbúa. Byggðastofnun hefur ráðið verkefnisstjóra á Raufarhöfn til eins árs, Kristján Þ. Halldórsson og mun hann fylgja málum eftir. Áfram verður lögð áhersla á virka þátttöku íbúa, enda er það forsenda þess að árangur náist.

Fundurinn á þriðjudag er mikilvægur áfangi í byggðaþróunarverkefninu og vonandi sjá allir áhugasamir sér fært að mæta. Fundurinn verður í Félagsheimilinu, kl. 17. Boðið upp á kaffi og meðlæti.