Íbúar Raufarhafnar horfa fram á veginn

Almennt – 28. janúar 2013
Frá íbúaþingi

Frá íbúaþingi

Ríflega þriðjungur íbúa Raufarhafnar, frá unglingum til eldri borgara, tók þátt í tveggja daga íbúaþingi um helgina, ásamt fulltrúum úr sveitarstjórn og frá ýmsum stofnunum.  Á líflegu þingi voru til umræðu þau mál sem helst brenna á samfélaginu og leiðir til lausna. Þingið var liður í byggðaþróunarverkefni á Raufarhöfn sem Byggðastofnun, Norðurþing, Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga og Háskólinn á Akureyri standa að.

Áherslan var ekki síður á það sem íbúar geta gert sjálfir, en lausnir sem þurfa að koma utan frá.  Þátttakendur stungu upp á umræðuefnum og var meðal annars rætt um atvinnumál almennt, ferðaþjónustu, sjávarútveg, nýsköpun, æðardún, þjónustumiðstöð vegna olíuvinnslu, skólamál, íþrótta- og tómstundamál ungra og aldinna, húsnæðismál, málefni yngra fólks sem vill snúa aftur heim til Raufarhafnar, internet og orkumál.

Í lok þings forgangsröðuðu íbúar því sem þeir telja skipta mestu máli fyrir eflingu byggðar á Raufarhöfn.  Byggðakvóti, eyrnamerktur Raufarhöfn, bæði í bolfiski og makríl, var þar efstur á blaði. Þar á eftir kom áhugi á verulegri sókn í ferðaþjónustu og markaðssetningu, efling atvinnulífs almennt og draumur um að eignir sem áður tilheyrðu SR fái nýtt hlutverk og skapi sóknarfæri af fjölbreyttum toga.  Fram komu áhyggjur af ástandi húsnæðis sem stendur autt og því að þrátt fyrir stöðuna er erfitt að fá íbúðarhúsnæði til leigu.  Þá var varpað fram ýmsum skemmtilegum hugmyndum um menningarstarf, heimkomuhátíð og samstarf við nágranna í skóla- og æskulýðsmálum.

Byggðastofnun mun á næstunni ráða starfsmann til að sinna þróunarverkefnum á Raufarhöfn til eins árs.  Á þinginu var íbúum gefinn kostur á að ræða um hver verkefni starfsmannsins ættu að vera, til að skerpa á markmiðum starfsins.

Steingrímur J. Sigfússon, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, lét ófærð ekki aftra sér og sat með heimamönnum í lok þings.  Hann lýsti yfir vilja til að styðja þetta verkefni og hvatti fólk til dáða.

Nú verður unnið frekar úr skilaboðum þingsins og mun verkefnisstjórn síðan gera áætlun um næstu skref.   Stefnt er að öðrum íbúafundi á Raufarhöfn í lok febrúar til að fylgja íbúaþinginu eftir.

Með þessu verkefni er verið að reyna nýjar leiðir í aðstoð við brothættar byggðir, þar sem þátttaka íbúanna sjálfra er í forgrunni.  Byggðastofnun stefnir að því að nýta reynsluna af Raufarhafnarverkefninu á fleiri stöðum á landinu í samstarfi við sveitarfélög og stoðstofnanir á viðkomandi svæðum.

Þegar boðið er til samráðs og þátttöku felur það í sér loforð um aðkomu að ákvörðunum.  Þeir aðilar sem standa að verkefninu hafa lofað að nýta skilaboð þingsins til að skilgreina valkosti í þeim málum sem að þeim snúa, ásamt því að koma sjónarmiðum íbúa á Raufarhöfn á framfæri við ríkisvald, stofnanir og fyrirtæki sem haft geta áhrif á þróun byggðarlagsins.  Unnið er samkvæmt alþjóðlegum stöðlum og aðferðum og var umsjón með íbúaþinginu í höndum Ildis, ráðgjafar og þjónustu, sem hefur sérhæft sig í þátttöku almennings.

Við upphaf þingsins ríkti óvissa þegar íbúar stóðu frammi fyrir því að móta dagskrána sjálfir og enginn vissi hvernig helgin myndi þróast.  Andinn var þó léttur og þegar þingið var opnað með harmonikkuleik skellti danspar sér óvænt út á gólfið.  Í lok þings hafði kraftur þátttakenda og samfélagsins alls verið virkjaður, það var hlegið, klappað og hrópað ferfalt húrra fyrir Raufarhöfn.

Hér má sjá myndir af íbúaþinginu.

 

Af heimasíðu Byggðastofnunar

Leave a Reply