Þann 8. maí síðastliðinn var auglýstur og haldinn íbúafundur í Hnitbjörgum þar sem stofnuð voru Íbúasamtök Raufarhafnar. Í stjórn voru kjörin þau Birna Björnsdóttir, Jóhann H. Þórarinsson og Þóra Soffía Gylfadóttir.
Á fundinum voru líflegar umræður um þörf fyrir íbúasamtök, hlutverk samtakanna og hlutverk stjórnar þeirra. Niðurstaðan er sú að stjórn er ætlað að fylgja eftir málum á milli íbúafunda og efna til funda eftir því sem ástæða þykir til. Fyrsta málið sem stjórnin fékk til meðferðar er að mótmæla og berjast gegn þeirri skerðingu á þjónustu Lyfju sem kom til framkvæmda 1. maí sl.
Stjórn samtakanna hvetur íbúa til að taka þátt í íbúafundum og umræðu um málefni staðarins og að koma á framfæri ábendingum um málefni sem varða hagsmuni samfélagsins alls.
Eftirfarandi áskorun hefur verið send til Lyfju:
„Nýstofnuð Íbúasamtök Raufarhafnar harma þá ákvörðun Lyfju að skerða þjónustu við íbúa Raufarhafnar, Kópaskers og nágrennis. Þessi breyting skerðir lífsgæði íbúa og eins og póstþjónustu er háttað, þá tekur einn til tvo daga að fá afgreidd lyf, þar sem lyfjasendingar koma gjarnan eftir lokun lyfjaafgreiðslu. Einnig getur skapast hættuástand þar sem læknar geta ekki nálgast nauðsynleg lyf í bráðatilfellum. Þetta telja íbúasamtökin vera aðför að öryggi íbúanna og skapi öryggisleysi, ekki síst hjá eldri borgurum. Íbúasamtök Raufarhafnar skora á Lyfju að endurskoða þessa ákvörðun með hagsmuni íbúa svæðisins í huga.“
Stjórn Íbúasamtaka Raufarhafnar