Í sameiginlegu verkefni Byggðastofnunar, Norðurþings, Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga og Háskólans á Akureyri, um þróun byggðar á Raufarhöfn er lögð áhersla á aðkomu íbúa. Haldnir hafa verið tveir fundir með íbúum og um næstu helgi, 26. – 27. janúar verður haldið íbúaþing í Grunnskólanum.
Til umræðu er Raufarhöfn og framtíðin, en fólksfækkun undanfarin ár og óvissa um framtíðina brennur á íbúum. Allt er til umræðu og þátttakendur móta sjálfir dagskrána. Vænta má umræðu um atvinnumál, umhverfismál og málefni samfélagsins. Umsjón með þinginu hefur Sigurborg Kr. Hannesdóttir, hjá ILDI, þjónustu og ráðgjöf.
Við upphaf þingsins verður upplýst um stöðu þeirra mála sem hafa komið til umræðu á fyrri fundum, s.s. möguleika í sjávarútvegi, þróun SR svæðisins, eflingu ferðaþjónustu og ráðningu starfsmanns í þróunarverkefni. Byggðastofnun og Norðurþing munu í sameiningu bera kostnað vegna starfsmanns og aðstöðu í eitt ár. Fjármagn í önnur verkefni liggur ekki fyrir, en samstaða íbúa um verkefni eykur möguleika á fjármögnun.
Skilaboð þingsins munu hafa áhrif á þá valkosti sem Byggðastofnun, Norðurþing, Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga og Háskólinn á Akureyri munu taka til skoðunar í sínum ákvörðunum varðandi Raufarhöfn. Einnig mun verkefnisstjórn koma skilaboðum þingsins á framfæri við ríkisstjórn, stofnanir og fyrirtæki sem hafa áhrif á þjónustustig og þróun byggðar á Raufarhöfn.
Gert er ráð fyrir að í lok febrúar verði síðan efnt til annars íbúafundar þar sem farið verður nánar yfir skilaboð þingsins og aðgerðir byggðar á þeim.
Þessi nálgun, að íbúar ræði málefni síns samfélags, stöðu og möguleika, er kjarninn í verkefninu um þróun byggðar á Raufarhöfn.
Af heimasíðu Byggðastofnunar