Merki um viðsnúning á Raufarhöfn

Almennt – 28. febrúar 2013

Frá fundinum á Raufarhöfn

Frá fundinum á Raufarhöfn

Á íbúafundi sem haldinn var á Raufarhöfn á þriðjudag, má merkja töluverðan viðsnúning frá því markviss vinna til að efla byggð hófst síðastliðið haust. Verkefnið er á vegum Byggðastofnunar í samstarfi við Norðurþing, Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga og Háskólann á Akureyri. Byggt er á virku samstarfi við íbúa og hafa þessar stofnanir lofað því að í sínum ákvörðunum í málum er varða Raufarhöfn muni skilaboð íbúa nýtt til að skilgreina valkosti, ásamt því að koma þeim á framfæri við ríkisvald, stofnanir og aðra sem geta haft áhrif á þróun byggðar á Raufarhöfn.

Ríflega 50 manns sóttu fundinn á þriðjudag og er þetta í fjórða sinn sem fundað er með íbúum. Í janúar var haldið íbúaþing, þar sem skilgreind voru sóknarfæri og þeim forgangsraðað. Umsjón með þinginu og íbúafundinum var í höndum Sigurborgar Kr. Hannesdóttur frá ráðgjafarfyrirtækinu Ildi.

Megináhersla er af hálfu íbúa er lögð á byggðakvóta fyrir Raufarhöfn, en fast á eftir fylgdu hugmyndir um uppbyggingu ferðaþjónustu og nýtingu húsa og lóðar áður í eigu SR. Á vettvangi Atvinnuvega- og nýsköpunarráðueytisins, og í atvinnuveganefnd Alþingis eru nú til skoðunar möguleikar á séstökum byggðakvóta til byggðarlaga í alvarlegum og bráðum vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi. Verið er að vinna að málefnum ferðaþjónustunnar á Raufarhöfn, meðal annars uppbyggingu Heimskautsgerðisins og endurbætur á Hótel Norðurljósum. Íbúar hafa hist og rætt um mögulega afþreyingu í ferðaþjónustu eins og t.d. hestaleigu og gönguferðir. Til skoðunar er að nýta SR-húsin í tengslum við ferðaþjónustu og verður tekin ákvörðun um framtíð svæðisins, innan árs. Á fundinum kom fram að fjömargar umsóknir bárust um störf í fiskvinnslu á vegum GPG sem er að auka starfsemi sína á Raufarhöfn. Ein fjölskylda er þegar flutt á staðinn vegna þessarar vinnu og önnur á leiðinni.

Umræður á fundinum voru afar jákvæðar og uppbyggilegar og ýmsar nýjar hugmyndir bornar upp. Rætt var um hugmynd Náttúrustofu Norðausturlands um að setja á fót alþjóðlega rannsóknastöð, um að marka stefnu um hágæða framleiðslu í fiskvinnslu, um að nyrsti hluti Melrakkasléttu verði hluti Vatnajökulsþjóðgarðs og fleira.

Í umræðum um opinbera þjónustu á fundinum komu fram áhyggjur af stöðu löggæslunnar, en einn lögreglumaður, staðsettur á Þórshöfn, sinnir fjórum byggðakjörnum á stóru svæði, þar á meðal Raufarhöfn. Fram kom hugmynd um að koma á fót nágrannavörslu í samstarfi við lögreglu.

Á fundinum var kynntur Kristján Þ. Halldórsson nýráðinn verkefnisstjóri til eins árs, með aðsetur á Raufarhöfn. Hann mun m.a. vinna áfram með þær hugmyndir sem viðraðar voru á íbúaþinginu sem og aðrar þær hugmyndir sem upp hafa komið í tengslum við verkefnið og fylgja málum eftir. Áfram verður lögð áhersla á virka þátttöku íbúa, enda er það forsenda þess að árangur náist.

Almenn ánægja kom fram á fundinum með verkefnið og bjartsýni á árangur þess. Verkefnisstjórnin undirstrikaði að íbúarnir þurfi áfram að vera virkir þó svo verkefnisstjóri komi til starfa. Ekki megi setja allt á hans herðar. Undir þetta tóku ýmsir fundargesta. Fram kom í máli forstjóra Byggðastofnunar að um óvissuferð er að ræða og að kannski muni takast að snúa byggðaþróun á Raufarhöfn til betri vegar og kannski ekki. Þá var lögð áhersla á að samstaða sé mikilvæg, bæði meðal íbúa sjálfra, sem og þeirra og sveitarstjórnar.

Byggðastofnun hyggst nú hefja vinnu við svipuð verkefni á fleiri stöðum á landinu sem þar sem við alvarlegan byggðavanda er að etja.

Hér má sjá greinargerð frá íbúaþinginu í lok janúar.

Af heimasíðu Byggðastofnunar

Leave a Reply